„Þú sækir þannig að mér að hérna í Faxaflóanum er aldrei nokkurt einasta símasamband. Það slitnar áður en maður tekur upp símann,“ sagði Birgir  Sigurðsson skipstjóri á netabátnum Maroni GK þegar þó náðist stutt spjall við hann um veiðar og gæftir.

Báturinn er gerður út af Maron ehf. sem gerir líka út netabátana Grímsnes og Halldór afa.

„Júlí var bara alveg ágætur þegar síldin var að hrygna þarna norðaustur af Sandgerði. Þorskurinn sækir í hana þegar hún hrignir og þá er alltaf gott nag. Þorskurinn er svo vandlátur að hann vill ekki vera í henni nema hún sé alveg komin að hrygningu. Svo dritaði hún þessu úr sér og er nú bara horfin eitthvað til hafs. Þar með datt botninn úr veiðunum,“ segir Birgir.

Hann var rétt fyrir utan Reykjavík að draga og sagði aflann ekki mikinn þessa stunda, 350 kg í trossu og þaðan af minna. Það sé ekkert mok núna og nú þurfi menn að þreyja þorrann fram í janúar. „Þetta er alltaf svona á haustin, bara eitthvað skrap.“

Upp í 25 tonn í róðri

Hann segir að þeir fáu bátar sem eru á netum séu innarlega í Faxaflóanum. Sú tíð er liðin að fjöldi netabáta gerði út frá Suðvesturhorninu. Nú eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar. Auk Marons GK eru ekki nema fjórir eða fimm aðrir litlir bátar, 12-15 tonna bátar, á netum.

„Þetta var engu að síður fínasta vertíð í vetur og þetta voru allt upp í 25 tonna róðrar þegar best lét. Við vorum að draga þetta 80 til 90 net. Við létum þau yfirleitt liggja í sólarhring í vetur. Núna erum við komnir í niðursveiflu því fyrir nokkrum árum létum við netin liggja bara í nokkra klukkutíma áður en við drógum. Við náum aldrei neinni uppsveiflu því það er alltaf búið að skera allar heimildir niður þegar að henni kemur.“

Birgir segir að undanfarin tíu ár hafi verið mikið af fiski. „Enda er þorskurinn búinn að éta allt sem hreyfist í sjónum. Hann er búinn með rækjuna, humarinn og sílið. Og þegar ekki annað er í boði annað étur hann sjálfan sig.“

Birgir byrjaði á Maroni GK áramótin 2007/2008. Hann segir enga ástæðu til þess að vera á þarflausum þvælingi. Sex eru í áhöfn og sami mannskapurinn nánast frá því Birgir tók við bátnum.

Kaupendur með í róðra

„Við höfum sótt í stóra fiskinn og hann þarf að vera alveg 100% svo þetta standi undir sér með leigukvóta. Það er auðvitað minna til skiptanna en hjá þeim sem eiga kvóta.“

Möskvarnir í netunum eru 9 tommur og fiskurinn yfir vertíð er allt að 10 kg. Þetta er því stór og vænn fiskur og fer óslægður í krapa um borð. Hann er svo slægður í landi og saltaður í fiskverkunarhúsi útgerðarinnar fyrir Portúgalsmarkað.

„Við erum bara að fiska eðalfisk fyrir Portúgal. Við komum líka með hann nánast spriklandi í land. Kaupendurnir eru svo áhugasamir að þeir koma hingað á hverju einasta ári og fara alltaf í einn eða tvo róðra með okkur. Í fyrra stóðu þeir fyrir glæsilegri saltfiskveislu í Reykjavík eins og þeir vilja hafa hann.“