*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Fólk 14. apríl 2019 19:01

„Veiddi“ kríu í laxveiði

Edda Rut Björnsdóttir er nýr markaðs- og samskiptastjóri Eimskips.

Sveinn Ólafur Melsted
Edda Rut Björnsdóttir, nýr markaðs- og samskiptastjóri Eimskips, hóf ung að árum að stunda stangveiði á bryggjunni í Garðinum og hefur veiðiáhuginn ekki elst af henni síðan þá.
Haraldur Guðjónsson

Edda Rut Björnsdóttir, nýr markaðs- og samskiptastjóri Eimskips,  kveðst vera mjög spennt fyrir nýja starfinu, en hún hóf störf í síðustu viku.

„Ég er alveg að skipta um geira og ég hef stundum sagt að ég  sé í raun að hefja þriðja líf mitt á vinnumarkaðnum. Fyrsta líf mitt var þegar ég vann við upplýsingatækni, annað lífið var svo í bankageiranum og nú er þriðja lífið að hefjast innan flutningageirans. Það er mjög spennandi að kynnast nýjum geira og gott að koma nýr inn í fyrirtækið, þar sem hér er til staðar mikið af góðu og reynslumiklu fólki sem er til í að leiðbeina manni. Ég hef því verið á fullu að læra nýja hluti frá því að ég hóf störf. Það er  skemmtilegt  tækifæri fyrir mig að koma inn í markaðs- og samskiptamál Eimskips þar sem fyrirtækið er rótgróið og með mikla sögu, og því hefur maður svo margt til þess að byggja á."

Áður en Edda hóf störf hjá Eimskip sinnti hún ýmsum störfum innan Íslandsbanka, en hún hóf störf hjá bankanum árið 2007. Hún segir að í öllum störfum sínum innan bankans hafi markaðsmálin fylgt sér að einhverju leyti. Edda segist hafa notið tímans hjá Íslandsbanka og að erfitt hafi verið að kveðja gömlu samstarfsfélagana.

Edda er gift Tryggva Björnssyni og eiga þau saman fjórar dætur á aldrinum  5 til 14 ára, sem allar eru á kafi í íþróttum. Hún segir að þau hjónin séu mjög veisluglöð og hafi gaman af því að elda góðan mat. „Við erum mjög oft með vini og fjölskyldu í mat hjá okkur. Okkur líður best þegar heimilið er fullt af fjölskyldu og vinum."

Meðal helstu áhugamála Eddu er líkamsrækt, en hún stundar æfingar nokkrum sinnum í viku með vinkonum sínum. Þá hefur Edda einnig mikinn áhuga á stangveiði. „Ég er uppalin í Garðinum og var farin að fara mjög ung að aldri niður á bryggju í björgunarvesti að veiða marhnúta. Veiðiáhuginn hefur svo ekkert elst af mér og ég hef alla tíð haft mjög gaman af því að veiða. Mér þykir mjög skemmtilegt að fara í stangveiði með vinum og fjölskyldu að veiða lax og silung."

Edda nefnir eina laxveiðiferð sem sérstaklega eftirminnilega. „Ég veiddi engan lax og kom því heim tómhent. Mér tókst hins vegar alveg óvart að „veiða" kríu, en hún steypti sér niður á fluguna á veiðistönginni minni og greip hana. Þetta leit því svolítið út eins og að ég væri að fljúga flugdreka," segir Edda og hlær.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is