Íslenski fiskiskipaflotinn veiddi fisk fyrir 44,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er 2,2 milljörðum minna en fékkst fyrir aflann á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur 4,7%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Fram kemur hjá Hagstofunni að aflaverðmæti botnfisks var rúmlega 25,5 milljarðar og dróst saman um 9,7% miðað við sama tíma í fyrra. Verðmæti þorskafla var um 14,2 milljarðar og dróst saman um 10,0% á milli ára. Þá nam verðmæti uppsjávarafla rúmum 16,3 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðung en það var 10,5% aukning á milli ára. Aukning skýrist að mestu af loðnuafla en aflaverðmæti loðnu nam 15,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er 18,4% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam aflaverðmæti afla sem sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands 26,9 milljörðum króna og dróst saman um 1,1% miðað við fyrsta ársfjórðung í fyrra. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 4,8% milli ára og var tæplega 5,8 milljarðar króna. Aflaverðmæti sjófrystingar nam tæpum 10,4 milljörðum í janúar til mars og dróst saman um 9,5% milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 1,1 milljarði króna, sem er 27,0% samdráttur frá í fyrra.