Margir ráku upp stór augu fyrir nokkrum árum þegar fréttist að bjartsýnismaður frá Ísafirði, Steingrímur Einarsson, væri að hanna og framleiða fluguhjól. Það fyrsta sem vakti athygli þeirra sem prófuðu fyrstu hjólin var hversu sterklega byggð þau voru, þótt sjá mætti á þessum fyrstu prufueintökum að hjólin voru í þróun. Eitt leiddi af öðru og skömmu síðar voru glæsileg tvíhenduhjól 9plus komin á markað. Hjól sem reynst hafa afar vel.

Fyrstu hjólin 2003

Segðu mér aðeins frá sjálfum þér og sögunni á bak við Einarsson hjólin .

„Ég er Reykvíkingur en ólst upp frá sjö ára aldri á bökkum Sogsins þar sem faðir minn starfaði fyrir Landsvirkjun. Þar kviknaði veiðiáhuginn sem hefur fylgt mér allar götur síðan.

Til að gera langa sögu stutta þá hef ég lagt ýmislegt fyrir mig; stundað sjómennsku og numið fiskeldisfræði. Það má segja að upp úr því að ég lauk því námi hafi boltinn farið af stað. Árið 1998 flyt ég á Ísafjörð, þar sem konan mín er fædd og uppalin. Árið 2001 tók ég síðan þátt í stofnun fyrirtækis sem sérhæfði sig í framleiðslu á íhlutum, renndum og fræstum, fyrir vélbúnað fyrirtækja í matvælaiðnaði. Strax var stefnan tekin á fullkomnar framleiðsluvélar og viti menn, þetta voru vélar sem hentuðu til að smíða fluguhjól.

Fljótlega var byrjað að spá í það að smíða hjól og það var síðan 2003 sem fyrstu sjö hjólin voru smíðuð, svona meira til gamans,“ segir Steingrímur. „Fljótlega fóru veiðimenn að veita þessum fyrstu hjólum athygli og fiskisagan flaug. Í framhaldinu var ákveðið að smíða fleiri hjól til að selja og þannig vatt þetta upp á sig. Það má segja að frá fyrstu hjólunum og fram á 2007 hafi Plús hjólin, eins og við köllum þau í dag, verið í stöðugri þróun. Endanlega var svo ákveðið, á vormánuðum ársins 2007 að stofna félag um hugmyndina. Þá var Fossadalur stofnaður og hef ég verið að vinna við þetta síðan.“

Einhvern tíma sagði Steingrímur að hann hefði sett sér það markmið að smíða besta fluguhjól í heimi. Dálítið bratt myndi einhver segja, en engin ástæða til að gefa neinn afslátt af markmiðunum sem fylgja á.

En hvað fær mann til að fara út í alheimsframleiðslu á fluguhjólum?

„Ætli það hafi ekki verið þörfin fyrir að skapa, vinna við áhugamálið, löngunin til að byggja upp fyrirtæki algörlega frá grunni, hanna og skapa vöruna, vörumerkið, dreifileiðirnar, allt þetta stúss heillar mig.

Ég er svo óendanlega heppinn að eiga góða að hvort sem það er fjölskyldan, starfsmennirnir eða meðeigendur í fyrirtækinu. Allt myndar þetta heild sem er ákveðin í að ná árangri en um leið hafa gaman af þessu.“

Nýtt hjól á markað

Hver er staðan í dag?

„Þessa dagana er unnið á vöktum í fyrirtækinu við framleiðsluna. Ágætis pantanir liggja fyrir og verið að vinna upp í þær. Í mars eru fyrstu hjólin að koma á markað í nýrri línu sem við höfum verið að þróa lengi. Hjólið ber nafnið INVICTUS og verður selt í sumar í stærðunum #8 – #10 – #12. Hugmyndin á bak við hjólið kviknaði þegar ég fór til Kúbu að veiða Tarpon vorið 2008. Leiðsögumennirnir okkar vildu hafa ótrúlega mikla bremsu á hjólunum, dregnir voru út 20-25 metrar af línu og svo var bremsan næstum sett í botn. Fyrir þá sem ekki vita þá þarf töluvert átak til að setja krókinn fastan því skoltarnir á Tarpon eru mjög harðir. Áður en fiskurinn tók var oftar en ekki búið að strippa inn 5-10 metra af línu sem liggur þá laus á dekkinu á bátnum. Svo taka þessir fiskar þvílíkar rokur, línan þýtur út og bang, töluvert högg kemur á hjólið þegar lausa línan er komin í hjól. Þá vaknaði þessi hugmynd að reyna að mýkja þetta högg. Hönnun hjólsins hefur verið unnin með ómetanlegri hjálp Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Fossadalur fékk styrk hjá Tækniþróunarsjóði Rannís til verkefnisins. Segja má að þessi aðstoð hafi gert útslagið með að það hafðist að klára hönnun á nýja hjólinu fyrir þetta tímabil og nú er það loks að koma á markað.“

Hjólið selt í 30 búðum

„Sterkasti markaður okkar er Noregur og í raun Skandinavía öll. Þýskaland hefur einnig verið að koma mjög sterkt inn en það má samt segja að við séum rétt að byrja á markaðssetningu þó að mikil vinna hafi verið unnin fram til þessa. Bretlandseyjar og Bandaríkin eru nánast alveg eftir. Þó erum við byrjaðir að ræða þar við nokkra aðila, einnig í Japan, Ástralíu, Suður Afríku og svo mætti halda áfram. Í raun er það þannig að það er sama hvar við bönkum upp á, okkur er alls staðar vel tekið. Við mætum ótrúlega miklum áhuga og góðvild, sérstaklega með þessa nýjung sem við erum að markaðssetja. Á þessu ári munum við líklega selja hjólin í 30-40 búðum, aðallega í Norður- Evrópu. Það er helst skortur á fjármagni sem heldur aftur af okkur því að svona nýsköpunarfyrirtæki þurfa gríðarlegt fjármagn til að komast yfir þröskuldinn. Að byggja upp fyrirtæki frá grunni, hanna vöru og markaðssetja á erlendum mörkuðum þar sem samkeppni er gríðarleg er hægara sagt en gert. Til þess þarf nægt fjármagn ásamt ofurskammti af þrautseigju,“ útskýrir Steingrímur.

Hvernig horfir svo framtíðin við ykkur hjá Einarsson?

„Framtíðarsýnin hefur alltaf verið að búa til hágæðahjól og ég mun líklega seint láta staðar numið því alltaf er hægt að bæta sig. Við höfum einnig horft til þess að breikka vörulínuna og selja fleiri vörur tengdar fluguveiði þegar við verðum búnir að búa til dreifileiðirnar fyrir hjólin og festa vörumerkið aðeins í sessi,. Sú vinna er örlítið komin af stað en bíður rétta tímans. Svo er búið að plana fleiri gerðir af hjólum, bæði stækkun á núverandi línu, s.s. fleiri stærðir auk nýrra hjóla sem við munum skýra frá í fyllingu tímans. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Við erum rétt að skríða af stað,“ segir Steingrímur Einarsson.

Viðtalið birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.