Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu í dómum sínum að sönnunargögn, sem aflað er með ólöglegum hætti, megi samt sem áður leggja fram fyrir dómi í Evrópuríkjum. Miðað við þetta þá er ekkert því til fyrirstöðu samkvæmt evrópskri mannréttindalöggjöf að sönnunargögn, sem aflað er með svokölluðum „veiðiferðum“, séu lögð fram.

Spurningar um sönnunargildi slíkra gagna hafa vaknað í kjölfar rannsóknar Seðlabankans á meintum brotum Samherja á lögum um gjaldeyrismál. Hafa Samherjamenn sagt að grunurinn um hið meinta brot sé byggður á röngum útreikningum og vildu því að Hæstiréttur dæmdi rannsóknina alla ólöglega. Hæstiréttur féllst ekki á þetta og hefur Seðlabankinn því enn þau gögn sem aflað var í húsleit hjá Samherja á dögunum. Vakni grunur um önnur og alls óskyld brot við skoðun þessara gagna verður hægt að nota þau í máli gegn fyrirtækinu. Hér ber að taka fram að ekki er verið að halda því fram að rannsókn Seðlabankans hafi verið veiðiferð í þessum skilningi, en spurningin um sönnunargildi gagnanna stendur þó.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.