Veiðigjald verður hækkað um 70% í haust og um 100% (frá því sem nú er) á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2012 verði tvö frumvörp ríkisstjórnarinnar til breytinga á lögum um fiskveiðistjórn að lögum. Morgunblaðið greinir frá þessu en ríkisstjórnin afgreiddi frumvörpin í gær. Þau verða þó ekki gerð opinber, eða lögð fyrir þing, fyrr en búið er að vinna mat á hagrænum áhrifum og kynna forsvarsmönnum sjávarútvegsins efni þess. Annað frumvarpið tekur gildi nú í haust en hitt fyrir fiskveiðiárið sem hefst 2012.

Veiðigjald gæti skilað um 4,8 milljörðum í ríkissjóð á næsta fiskveiðiári og 5,6 milljörðum frá haustinu 2012. 30% af veiðigjaldi eiga að sögn Morgunblaðsins að renna til sjávarplássa samkvæmt síðara frumvarpinu og gilda um það sérstakar reglur. Miðað er við að 20% veiðigjalds renni til sjávarbyggða frá og með næsta hausti.

Meðal annarra þátta sem finna má í frumvarpinu má nefna að varanlegt framsal verður leyft í 15 ár, úthlutun á aflaheimildum verður breytt i nýtingarheimildir samkvæmt samningum til afmarkaðs tíma og þegar fram líða stundir munu 15% heildarkvóta fara í potta, fyrst um sinn verður hlutfallið þó 8%.

Mat á hagrænum áhrifum frumvarpsins verður unnið af hópi sex hagfræðinga undir forystu Axels Hall, lektors við HR.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar segjast í samtali við Morgunblaðið sátt við niðurstöðuna en Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir verið að veikja íslenskt samfélag. Hann sé ósáttur við að hagsmunaðilar hafi ekki átt aðild að frumvarpinu og hann hafi ekki fengið að sjá það.