Félag atvinnurekenda og samstarfsfélagið SFÚ, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, benda í umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis á að ákvæði í frumvarpi um veiðigjöld, um aukið vægi aflaverðmætis í útreikningi veiðigjalda, ýti enn undir tvöfalda verðmyndun í sjávarútvegi, mismuni fyrirtækjum og hafi neikvæð áhrif á samkeppni í greininni.

Í frumvarpinu er samkvæmt greinargerð leitast við að „afmarka stofn veiðigjalds við borðstokk í stað þess að horfa til rekstrar í sjávarútvegi í heild.“ Í samræmi við það fær uppgefið aflaverðmæti aukið vægi við útreikning veiðigjalds, nái frumvarpið fram að ganga, sbr. ákvæði 5. greinar þess.

FA og SFÚ rifja upp að svokölluð tvöföld verðmyndun sé regingalli í íslenskum sjávarútvegi, en hún felst í því að í innri viðskiptum svokallaðra lóðrétt samþættra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja er afli seldur á lægra verði frá útgerð til vinnslu en í viðskiptum á fiskmörkuðum, þar sem hið raunverulega markaðsverð myndast. Verð er nánast án undantekninga lægra í viðskiptum ótengdra aðila en tengdra. Muninn má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd, sem sýnir verð á 2-3,5 kg óslægðum þorski, annars vegar í innri viðskiptum tengdra aðila (Verðlagsstofa skiptaverðs) og hins vegar á fiskmörkuðum.

Ýta undir hvata til að gefa upp sem lægst verð

„Að mati SFÚ og FA mun þessi breyting ýta undir hvata lóðrétt samþættra sjávarútvegsfyrirtækja til að gefa upp sem lægst verð á lönduðum afla, með tilheyrandi afleiðingum fyrir tekjur sjómanna og hafnarsjóða og samkeppnisstöðu fiskvinnslna,“ segir í umsögn samtakanna.

„Ákvæði frumvarpsins munu einungis ýta enn frekar undir tapaðan þjóðarhag byggt á sömu forsendum. Algjör aðalforsenda hlýtur að teljast að veiðigjald leggist jafnt á allar útgerðir fyrir sömu fisktegund. Aðilar ættu þannig alls ekki að geta haft áhrif á veiðigjald sem þeir greiða með því að selja vöruna gegn lægra verði. Það leiðir til óeðlilegrar samkeppni og eykur líkur á því að hámörkun þjóðarhags náist ekki.“