Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, gagnrýnir að útgjöld til hafrannsókna hafi dregist saman jafnvel þótt veiðigjöld hafi hækkað verulega. Þrátt fyrir þetta sé eitt af grundvallarmarkmiðum stjórnvalda við álagningu veiðigjalda að fjármagna þjónustu við sjávarútveginn.

„Sparnaður í hafrannsóknum er gott dæmi um það þegar verið er að spara eyrinn og kasta krónunni,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins .

Hann bendir á að hafrannsóknir geri útgerðinni kleift að nýta stofnana á sjálfbæran og ábyrgan hátt með langtímasjónarmið að leiðarljósi.