Samkomulag náðist í dag um afgreiðslu mála á Alþingi, þar á meðal frumvarpi um veiðigjöld og fiskveiðistjórnunarkerfið.

Veiðigjald er afmarkað til eins árs, það verði að hámarki frá 12,7 - 13,8 milljarðar króna. Gjaldið verður lagt á til eins árs en í millitíðinni mun sérfræðihópur endurmeta gjaldið. Ef forsendur gjaldsins reynast rangar verður það endurskoðað strax á fyrsta ári. Það sama á við ef verðþróun á mörkuðum eða aflabrestur gefa tilefni til endurskoðunar.

Frumvarp um stjórn fiskveiða verður frestað til næsta þings samkvæmt fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum. Fulltrúar allra þingflokka munu halda áfram samráðsvinnu og verði nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun lagt fram mun það byggjast á vinnu þess hóps. Öllum áformum um fyrningu aflaheimilda hefur því endanlega verið hafnað.

Þingið mun því koma saman á ný 11. september samkvæmt starfsáætlun.