Veiðiverslunin Yellowstone Angler í Montana í Bandaríkjunum birtir nokkrum sinnum á ári úttektir sem byggðar eru á viðamiklum prófunum á ýmsum veiðibúnaði. Þessar úttektir eru víðlesnar og mjög virtar á meðal veiðimanna, sérstaklega í Bandaríkjunum en þó einnig í Evrópu og víðar um heim.

Nú hefur verið birt niðurstaða úr prófunum á 20 fluguveiðihjólum. Flest þessara hjóla eru frá mjög virtum framleiðendum eins og Ross, Orvis, Lamson, Hardy, Abel, Loop og Sage, svo einhver merki séu nefnd. Fluguveiðihjól frá Einarsson, sem nefnist Einarsson 9 Plus, lenti í öðru sæti í prófunum. Til þess að gefa lesendum hugmynd um umfangið þá er dæmt út frá 20 atriðum og er hæst hægt að skora 20 stig í hverjum flokki. Hjólið frá Einarsson fékk 247 stig eða einu stigi minna en Nautilus NV G-8.

Gríðarleg viðbrögð

Steingrímur Einarsson rennismiður stofnaði fyrirtækið Einarsson árið 2007. Alls starfa þrír við smíði veiðihjólanna en að auki starfar einn á skrifstofunni. Starfsemin er til húsa niðri við höfn á Ísafirði.

„Við höfum fengið gríðarleg viðbrögð eftir þetta,“ segir Steingrímur. „Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum frá Bandaríkjunum, bæði í tölvupósti en einnig hefur verið hringt í okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .