Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs 365 á dögunum. Guðmunda Ósk gekk í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist svo sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999. Hún lauk síðan löggildingu í verðbréfaviðskiptum árið 2001.

Guðmunda Ósk hefur lengi unnið í bankageiranum og starfaði framan af sem skuldabréfa- og hlutabréfagreinandi hjá Búnaðarbankanum, en flutti sig yfir til Landsbankans árið 2003. Árið 2007 hóf Guðmunda störf á fyrirtækjasviði Landsbankans sem viðskiptastjóri, þar sem hún hefur unnið síðan.

Árleg veiði með stórfjölskyldunni

Eiginmaður Guðmundu er Frosti Reyr Rúnarsson og starfar hann hjá Virðingu. Saman eiga þau þrjá stráka, þá Kristján Snæ, Rúnar og Róbert Aron.

Fjölskyldan nýtti sumarið meðal annars til þess að ferðast um landið, en þau dvöldu meðal annars á Stykkishólmi og á æskuslóðum Frosta á Hólmavík. Sólarferð til Flórída var hins vegar á dagskrá í vor. Þá var slappað af en ekki gafst tími til að golfa að sögn Guðmundu, enda var það ekki hátt á óskalistanum hjá drengjunum þremur. Guðmunda segir veiði aftur á móti vera áhugamál hjá þeim Frosta.

Eruð þið eitthvað búin að ná að veiða í sumar?

„Já, reyndar í sitt hvoru lagi, en við höfum bæði náð að veiða. Svo reyndar hefur fjölskyldan mín hefur aðgang að á sem við förum alltaf í árlega, öll stórfjölskyldan saman.“

Er það keppni hjá ykkur í fjölskyldunni, hver veiðir mest?

„Það eru ákveðnir aðilar sem snúa þessu upp í keppni. Það er mikið keppnisskap í fjölskyldunni,“ segir Guðmunda og hlær. „Elsti sonur minn vill alltaf fá að veiða mest.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .