Leyfilegt var að hefja veiðar á maðk og spún í Rangánum síðastliðinn þriðjudag og segir Stefán Sigurðsson, sölustjóri Lax-á, að mikill spenningur hafi verið í veiðihúsinu fyrir drátt um svæði þann daginn. Þangað til hafði einungis verið leyft að veiða á flugu. Mjög hefur verið þrengt að kostum þeirra veiðimanna sem kjósa að nota annað agn en flugu og örugglega margir sem fagna því að maðkahollin séu byrjuð í nokkrum fluguám. Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengir, Haraldur Eiríksson, markaðs- og sölufulltrúi Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) og Stefán Sigurðsson hjá Lax-á segja allir að sala veiðileyfa í sumar hafi gengið vel. Menn hafi verið fljótir að tryggja sér veiðileyfi snemma á tímabilinu og tiltölulega lítið úrval sé af laxveiðileyfum í september. Ýmsir aðrir kostir eru þó í boði.

Stöng á stangli

Þröstur segir samt að til séu leyfi í Jöklu og hliðarám í september. Á mánudaginn hefðu 26 laxar komið á land og enn væri góður gangur í ánni. Stefán tekur fram að til séu leyfi í Ytri Rangá í september, sem sé góður kostur fyrir höfuðborgarbúa sem vilja komast í lax. Þar sé líka veitt lengur fram á haustið en víða annars staðar. Miðað er við að veiði ljúki um 20. október en veitt hefur verið lengur í október og fari það eftir aðstæðum hverju sinni. Þá sé einnig eitthvað laust í Stóru Laxá. Haraldur segir stöng á stangli á lausu í Soginu fyrir landi Ásgarðs og í Þrastarlundi, en annars sé lítið úrval af laxveiðileyfum. Nú sé nokkur eftirvænting fyrir sjóbirtingsveiðinni og hefur verið vel selt í Tungufljót í september. Veitt sé til 10. október og því sé enn tækifæri til að renna fyrir birtinginn. Einnig er sjóbirting að finna í Varmá og Þorleifslæk við Hveragerði.

Laust í sjóbirting

Þröstur Elliðason bendir til dæmis á laus leyfi í Tungulæk og Minnivallalæk. Byrjunin í sjóbirtingi í Tungulæk hafi verið róleg en leikar séu að æsast við árbakkann. Seld eru veiðileyfi til 20. október. Einnig sé hægt að fá leyfi í silung í Breiðdalnum, þótt það sé heldur langt til að skjótast fyrir höfuðborgarbúa. Hins vegar er hægt að sameina ferð í fleiri ár sem er ódýrari valkostur en laxveiðin og ekkert síðri fyrir þá sem hafa komist upp á lag með að veiða silung með nettum græjum. Ekki má gleyma fjölmörgum silungsveiðiám um allt land. Úrvalið er mikið og ágætt að fara í september. Þá eru vötnin ennþá opin fyrir þá sem veiða ekki bara í straumvatni. Það er því nóg af möguleikum og ótímabært að pakka saman veiðidótinu fyrir veturinn.