Nú um áramótin verður tekið veigamikið skref til losunar fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki. Er það þriðji áfangi í áætlun stjórnvalda frá júní 2015. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands .

„Frá þeim tíma munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu, átt viðskipti með verðbréf erlendis og keypt eða tekið út erlendan gjaldeyri í reiðufé fyrir allt að 100 milljónum króna. Um áramótin taka jafnframt gildi nýjar reglur um gjaldeyrismál sem fela í sér frekari heimildir til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa,“ segir í fréttinni.

Eftir að þessar breytingar hafa gengið í gegn minnka takmarkanir sem fyrirtæki hafa búið við enn frekar. Stór hluti almennings mun búa við litlar sem engar skorður vegna fjármagnshaftanna að sögn Seðalbankans.

Tekið er fram í fréttinni að fram til þessa hafi fyrsta skref losunarinnar gengið vel. „Innsendum beiðnum um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál hefur fækkað um helming, fjárfesting erlendis aukist og framkvæmd einfaldast,“ segir þar.