*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 23. nóvember 2017 11:45

Veigar semur við Star Wars

Fyrirtæki Veigars Margeirssonar, Pitch Hammer Music, mun semja tónlist í markaðsefni fyrir Star Wars: The Last Jedi.

Ritstjórn
Vélmennin tvö, R2D2 og C3PO eru þekktar úr Star Wars heiminum

Fyrirtækið Pitch Hammer Music var fengið af Disney fyrirtækinu að semja og útsetja tónlist í markaðsefni fyrir nýjustu Stjörnustríðskvikmyndina, Star Wars: The Last Jedi, að því er Morgunblaðið segir frá.

Veigar Margeirsson, er helmingseigandi að Pitch Hammer Music, og listrænn stjórnandi fyrirtækisins sem hann á með konu sinni Sigríði Rögnu Jónasdóttur og Brian Brashers. Fyrirtækið þeirra sá um tónlistina fyrir stiklur úr myndinni sem nú þegar er farið að sýna í sjónvarpi í Bandaríkjunum, en myndin verður frumsýnd hér á landi 14. desember næstkomandi.

Veigar segir allt annað en auðvelt að komast inn hjá Disney samsteypunni, en hann segir mikla leynd hvíla yfir öllum undirbúningi myndarinnar.

„Ég má t.d. aldrei fá sent myndefni til mín og má einungis horfa með framleiðendum undir sérstöku eftirliti, með tilheyrandi undirskriftum og samþykktum,“ segir Veigar. „Við höfum unnið mikið fyrir þá í Pirates of the Caribbean og Marvelofurhetjumyndirnar til dæmis.“

Veigar hefur unnið í 16 ár við stiklutónlist þó fyrirtækið sjálft sé fimm og hálfs árs gamalt. „Við erum komin með góða markaðshlutdeild í þessum geira og vinnum fyrir öll helstu kvikmyndaverin; Universal, Warner Bros., Twentieth Century Fox, Sony o.s.frv.,“ segir Veigar.

„Stundum vinnur kvikmyndatónskáldið sjálft þessa stiklutónlist líka, en hljómurinn í stiklunum er svo sérhæfður að tónskáldin ná því kannski ekki sjálf endilega.“