Viðskiptaaðilar Isavia segjast veigra sér við að gagnrýna félagið opinberlega því þeir telja að slíkt geti skaðað samskipti sín við það, aðrir segja félagið hafa neikvætt viðhorf til útboða.

Hnökrar á samskiptum við stéttarfélög og starfsmanna á milli

Þetta er meðal niðurstaðna úttektar Ríkisendurskoðunar á rekstri Isavia ohf. Sýnir hún jafnframt að hnökrar séu á hvort tveggja samskiptum fyrirtækisins við stéttarfélög og samskiptum stjórnenda við starfsmenn.

Að beiðni forsætisnefndar Alþingis hefur Ríkisendurskoðun kannað nokkra þætti í rekstri Isavia ofh sem snúa að starfsmannamálum, samskiptum við viðskiptavini og aðra hagmunaaðila, launa- og starfskjörum yfirstjórnar, áfengissölu Fríhafnar og stöðu flugöryggismála.

Að þróast til betri vegar

Þrátt fyrir ofannefnda óánægju og fréttir undanfarinna mánaða um kjaradeilur og deilur vegna útboða segir í skýrslunni að að hagsmunaaðilar sem við hafi verið rætt telji að ýmsir þættir sem hafi orsakað ágreining og vandamál áður séu að þróast til betri vegar.

Jafnframt heyri sumt af þeirri gagnrýni sem höfð hafi verið uppi gagnvart Isavia ekki undir félagið, heldur stjórnvöld. Bendir úttektin ekki til alvarlegra vandamála hjá félaginu í samskiptum við starfsmenn eða viðskiptaaðila, starfsmannavelta sé innan eðlilegra marka og eðlilegar skýringar séu á veikindafjarvistum. Að auki falli niðurstaða í kærumælum vegna útboða gagnvart Isavia félaginu nær alltaf í vil.

Ekki athugasemdir um launagreiðslur stjórnenda

Kjör stjórnenda séu vel innan marka þeirra sem tíðkist hjá stjórnendum fyrirtækja af sambærilegri stærð, en endurskoðunin leiddi ekki í ljós athugasemdir við ákvarðanir á launagreiðslum stjórnenda.

Staða flugöryggismála sé jafnframt sögð í mjög ásættanlegu horfi, ábendingar hafi verið settar fram um það sem betur mætti fara en það sé mat Samgöngustofu að almennt hafi gengið vel að ráða bót á þeim frávikum.

Vantar skýrari reglur um áfengissölu

Áfengissala í fríhafnarverslunum byggir á ákvörðunum stjórnvalda, en lagaákvæði um áfengissöluna séu óljós.

Er niðurstaða skýrslunnar að skýra þyrfti betur í lögum að hvaða marki sala áfengis í fríhöfnum geti vikið frá hinum ýmsu skilyrðum sem annars gilda um smásölu áfengis.