Rússneski olíurisinn Gazprom hagnaðist um 5,9 milljarða dali, jafnvirði 792 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Jókst hagnaðurinn um 71% frá sama tímabili í fyrra. BBC News greinir frá uppgjöri fyrirtækisins.

Þar kemur fram að fyrirtækið geti að stórum hluta þakkað veikingu rússneska gjaldmiðilsins, rúblunnar, þennan mikla vöxt en fyrirtækið selur gas sitt í Bandaríkjadölum. Heildarsala fyrirtækisins jókst jafnframt um 6% á milli ára og nam nú um 25 milljörðum dala.

Þrátt fyrir bætta afkomu á milli ára lækkaði gengi hlutabréfa fyrirtækisins um næstum 2% í kauphöllinni í Moskvu eftir birtingu uppgjörsins.