Veiking krónu og lækkun húsnæðisverðs mun togast á í næstu mælingum á vísitölu neysluverðs og getur myndast töluverður munur á vísitölu neysluverð með og án húsnæðis segir í nýrri spá IFS greiningar.

Verðbólguspá IFS greiningar fyrir maímánuð hljóðar upp á 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 10,7% og 3 mánaða verðbólga fara niður í 0,6%.

Gengi krónunnar hefur veikst um 15% síðan um miðjan mars og mun sú veiking koma fram í mælingum vísitölu neysluverðs á næstunni. Í apríl hækkaði vísitala neysluverðs um 0,45% og um 0,84% án húsnæðisverðs. Verðbólguspá IFS greiningar án húsnæðisliðar hljóðar upp á um u.þ.b. 0,7% hækkun en 0,3% hækkun með húsnæði.

Það kostar peninga að reykja

Fram kemur að verð á tóbaki og áfengi hækkaði töluvert um mánaðarmótin. Tóbak hækkaði um 4% og áfengi um 0,6%. Fyrrgreindar hækkanir hafa um 0,06% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Þá kemur fram að eldsneytisverð hefur hækkað umtalsvert síðustu daga vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs olíu og veikara gengis krónu. IFS gerir ráð fyrir um 5-6% hækkun á eldsneyti sem hefur um 0,25% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Ýmsir innfluttir liðir að hækka

Vegna gengisveikingar er verð ýmissa innfluttra vara að hækka í mánuðinum, t.d. bifreiða.

„Margt smátt gerir eitt stórt og gerum við ráð fyrir að hækkun á ýmsum innfluttum vörum leiði til um 0,2-0,3% hækkunar á vísitölunni,“ segir í verðbólguspá IFS.

Reiknuð húsaleiga enn mesti óvissuþátturinn

Reiknuð húsaleiga lækkaði um 1,6% í apríl eftir að hafa lækkað um 5,1% í mars. Miklar sveiflur eru í reiknaðri húsaleigu sem reiknar húsnæðiskostnað í vísitölu neysluverðs. Reiknuð húsaleiga vegur þungt og miklar sveiflur í þessum lið geta haft mikil áhrif milli mánaða. Að mati IFS mun reiknuð húsaleiga lækka um 2,5% sem hefur um 0,3% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Gengi krónu hefur veikst umtalsvert

Gengi krónunnar hefur sem fyrr segir veikst um 15% síðan um miðjan mars og segir IFS að sú veiking muni koma fram í mælingum vísitölu neysluverðs á næstunni.

„Í apríl hækkaði vísitala neysluverðs um 0,45% og um 0,84% án húsnæðisverðs. Verðbólguspá okkar án húsnæðisliðar hljóðar upp á um u.þ.b. 0,7% hækkun en 0,3% hækkun með húsnæði. Veiking krónu og lækkun húsnæðisverðs mun togast á í næstu mælingum á vísitölu neysluverðs og getur myndast töluverður munur á vísitölu neysluverð með og án húsnæðis,“ segir í verðbólguspánni.