Ekki hefur orðið teljandi aukning á ferðamannastraumi hingað til lands þrátt fyrir veikingu krónunnar, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Erlendum ríkisborgurum sem fara um Keflavíkurflugvöll fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins um 6% borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2007.

„Það hefur dregið úr þeirri miklu aukningu ferðamanna sem verið hefur síðustu tvö ár það sem af er þessu ári, þrátt fyrir veikingu krónunnar,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Ástæðan er auðvitað efnahagsástandið í helstu viðskiptalöndum okkar. Langmestur er samdrátturinn í ferðamannastraumi frá Bandaríkjunum, en Bandaríkjamenn eru hér býsna mikið yfir veturinn og á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hefur þeim fækkað um 23% miðað við sama tímabil í fyrra.“

Að sögn Ernu ræður efnahagsástandið í landi ferðamannsins og verð á flugfari mestu um hversu margir koma hingað til lands.

„Þó svo að þeim sem fara um Keflavíkurflugvöll hafi fjölgað þá segir það ekki alla söguna. Inni í þeirri tölu eru allir, líka þeir sem eru að vinna hér o.s.frv. Auk þess er talið út úr landinu og það er t.d. gríðarleg fjölgun á Pólverjum núna, sem við vitum að eru að fara heim til sín vegna samdráttar í byggingabransanum.“

Ferðamenn halda lausar um budduna en áður

Veiking krónunnar hefur þó haft einhver áhrif hér á landi, en tölur um endurgreiðslu virðisaukaskatts á Keflavíkurflugvelli benda til þess að erlendir ferðamenn hér á landi versli talsvert meira nú en áður.

Samkvæmt upplýsingum frá Iceland refund jókst endurgreiðsla á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna um 62% í júlí borið saman við júlí í fyrra.

Inni í þeirri tölu er einhver skekkja vegna landsmóts hestamanna, sem dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna, en að sögn Inga Þórs Arnarssonar, framkvæmdastjóra Iceland refund, hefur endurgreiðsla virðisaukaskatts aukist um 40-50% milli ára sé aukning vegna hestamannamóts tekin út.