Krónan veiktist um 1,9% í dag, þessa veikingu má að hluta skýra með aukinni umfjöllun í fjölmiðlum undanfarna daga um hugsanlega breytingu á eigin fé viðskiptabankanna í evrur, að sögn greinignardeildar Landsbankans.

"Vangaveltur þar um hafa reyndar verið uppi undanfarna mánuði og eru greinilega orðnar almennari nú, þó svo að alls ekki sé ljóst að slík breyting ætti að hafa neikvæð áhrif á gengið þegar til lengdar lætur," segir greiningardeildin.

Það hafa verið miklar sveiflur á gengi krónunnar undanfarnar vikur. "Krónan styrktist framan af desember og þann 18. desember var vísitala gengisskráningar 122,45 samkvæmt skráningu Seðlabankans. Þá tók krónana að síga á ný og undir lok dags 22. desember féll hún um 3% þegar Standard & Poors lækkaði lánshæfismat ríkissjóðs.

Eftir jól styrktist krónan á ný og voru veikingaráhrif lækkunar lánshæfismatsins að fullu gengin til baka þann 4. janúar. Krónan hefur flökt á nokkuð þröngu bili síðan þá, en veiktist í dag um 1,9% í 43,4 milljarða króna viðskiptum," segir greiningardeildin.