Greiningaraðilar benda á að veiking krónunnar muni auka verðbólguþrýsting, en krónan veiktist um tæp 2% við opnun gjaldeyrismarkaðar í dag.

Vísitala neysluverðs hækkaði umfram spár greiningaraðila og nam hækkunin 1,12% í mars og er vísitalan 252,3 stig, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 233,6 stig og hækkaði um 1,17% frá því í febrúar.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,8%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,4% sem jafngildir 5,6% verðbólgu á ári (2,8% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Greiningaraðilar spá því nú að ólíklegt sé að verðbólgan fari undir efri þolmörk Seðlabanka Íslands á næstu tólf mánuðum. Sumir velta því fyrir sér hvort að Seðlabankinn muni hækka vexti enn frekar næsta vaxtaákvörðunardag, en stýrivextir eru 10,75%, eða hleypa verðbólguskotinu í gegn.