Að mati Hauks Ómarssonar, sérfræðings í sjávarútvegi hjá Landsbankanum, er ljóst að rekstrarárið 2020 mun ekki verða jafn gott og árið í fyrra, fyrst og fremst vegna heimsfaraldursins. Bæði Haukur og Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte, segja að afkoma greinarinnar á síðasta ári hafi verið verulega góð.

Félögunum hafi tekist að fá hátt afurðaverð erlendis og gengi krónunnar hafi verið tiltölulega lágt. Árlegt umfang loðnubrestsins sé um 20- 30 milljarðar króna í heild sinni en téðir viðmælendur nefna að veiði á makríl hafi vegið á móti. Samanlagður hagnaður tíu stærstu útgerða landsins jókst um ríflega helming milli ára og nam 29 milljörðum króna.

Að þeirra sögn koma áhrif faraldursins helst fram í lægra afurðaverði á Evrópumarkaði þar sem lokun veitingastaða hefur mikil áhrif. Hins vegar sé gengi krónunnar nú enn hagstæðara en áður og segir Haukur að áhrif lækkandi krónu vegi að miklu leyti á móti lægra afurðaverði vegna Covid. Haukur segir að sala íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna hafi gengið betur en hann þorði að vona. Við upphaf faraldursins hafi verið uppi ótti við birgðasöfnun, slíkt hafi ekki raungerst þó að félögin hafi vissulega fengið lægra afurðaverð en ella.

Umfang fiskeldis aukist stórlega

Tekjur af fiskeldi hérlendis námu um 29 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 56% milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) af fiskeldi hér á landi nam 6,4 milljörðum árið 2019 en 1,4 milljörðum árið áður. Hagnaður af téðri starfsemi nam 1,9 milljörðum en starfsemin hefur verið rekin með tapi frá árinu 2015, að því er fram kemur í skýrslu Deloitte um afkomu sjávarútvegsins.

Framleiðsla frá fiskeldi nam 34 þúsund tonnum en 19,1 þúsund tonnum árið áður og 8,4 þúsund tonnum árið 2015. Aukningin nemur því ríflega 300% frá árunum 2015-2019. Sömuleiðis hefur útflutningsverðmæti fiskeldis aukist stórlega, um 256% frá 2015. Fram kemur í skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn árið 2019 að OECD áætli að árið 2022 verði magn fiskeldis í fyrsta sinn meira en veiðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .