Gjaldmiðill Rússlands, rúbla, hefur lækkað um 3,1% í dag gagnvart Bandaríkjadal. Nú þarf 81,049 rúblur til að kaupa einn Bandaríkjadal. Síðasta föstudag var hlutfallið 76,4 rúblur á móti einum dal og í febrúar 2014 var hlutfallið 35 rúblur á móti einum dal.

Rúblan hefur fallið meira en aðrir nýmarkaðs-gjaldmiðlar á árinu, eða um 9%. Á sama tíma hefur verð á Brent hráolíu fallið um 25% sem hefur aukið verulega á vandamál Rússlands. Tekjur Rússlands af olíusölu hríðlækkað samhliða lækkandi olíuverði.

Seðlabanki Rússlands hefur sagt að hann ætli ekki að grípa inn í veikingu gjaldmiðilsins nema að hún skapi kerfislega hættu fyrir bankakerfi landsins.

Rússland hefur undanfarið gengið verulega á varasjóði sína en talið er að sjóðir landsins gætu tæmst um lok þessa árs. Eignir sjóðanna námu 59 milljörðum dala í nóvember sl. en það nemur um 7.650 milljörðum króna.

Veiking rúblu gagnvart Bandaríkjadal í viðskiptum dagsins.

© vb.is (vb.is)