Ný lög um stjórn fiskveiða, sem ríkisstjórnin hyggst samþykkja í haust, munu hafa veruleg áhrif á efnahag sjávarútvegsfyrirtækja að mati starfshóps um hagræn áhrif breytinganna. Áhrifin verða vegna þess að lögin hafa þau áhrif að veiðiheimildir munu lækka að verðmætum samkvæmt skýrslu hópsins. Áhrifin séu mismunandi eftir fyrirtækjum. Sum fyrirtæki bókfæri virði veiðiheimilda lágt önnur bókfæra þær háu verði. Auk þessa hafi almenn skuldsetning fyrirtækjanna mikið að segja varðandi áhrif laganna á efnahagslega stöðu fyrirtækjanna.

Fjárhagslegur styrkur sjávarútvegsfyrirtækja eftir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.
Fjárhagslegur styrkur sjávarútvegsfyrirtækja eftir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.
© vb.is (vb.is)

Úr skýrslu starfshópsins. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Tafla sem er hér að ofan sýnir efnahagslega stöðu tuttugu af tuttugu og fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum í árslok 2009. Sýnt er bókfært eiginfjárhlutfall en það er eigið fé sem hlutfall af heildareignum (eiginfjárhlutfall). Þetta hlutfall þarf almennt að vera hærra en 30% svo vel sé samkvæmt starfshópnum. Það var einungis 0,2% að meðaltali hjá þessum fyrirtækjum. Bókfærð staða fyrirtækjanna er því veik og fjármagna fyrirtækin sig að mestu með lánsfé.

Þrjú með neikvætt eiginfjárhlutfall

Hins vegar þegar eigið fé er endurmetið, þ.e. þegar veiðiheimildir eru metnar á áætluðu markaðsverði, breytist staðan nokkuð. Þá er eiginfjárhlutfall, þ.e. endurmetið eiginfjárhlutfall, að meðaltali 32,6% hjá þessum fyrirtækjum. Þá eru einungis þrjú af tuttugu með neikvætt endurmetið eiginfjárhlutfall en níu eru með þetta hlutfall bókfært neikvætt.

Skuldir hærri en eignir

Í skýrslunni segir:

Seinasti dálkurinn sýnir svo áhrif laganna á endurmetið eiginfjárhlutfall félaganna [...] Áhrif laganna eru þau að meðal endurmetið eiginfjárhlutfall félaganna verður -4,6%. Því munu þessi félög að meðaltali skulda meira en sem nemur verðmæti eigna ef þessi lög um breytingar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar verða samþykkt. Tíu félög af tuttugu verða þá með neikvætt endurmetið eigið fé og staða þeirra er þá mjög erfið