Greiningardeild Arion banka segir í markaðspunktum hennar í dag að minnkandi afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum veiki undirstöður krónunnar. Þjónustujöfnuðurinn hefur ekki verið jafn óhagstæður frá hruni en jöfnuðurinn var einnig talsvert neikvæður á fjórða fjórðungi síðasta árs.

Í markaðspunktunum kemur fram að á síðasta hálfa ári hafi nettó 10 milljarðar króna farið úr landi í gegnum þjónustuviðskipti þrátt fyrir 11% aukningu í komu   ferðamanna til landsins á þessu tímabili.

„Utanlandsferðir Íslendinga vega þar þungt en 16% aukning var í ferðum Íslendinga út fyrir landsteinana síðustu sex mánuði. Að undanskilinni vænni aukningu í vöruútflutningi í upphafi ársins hefur aukningin í vöruinnflutningi verið meiri en í útflutningi frá síðasta hausti og gengur því smám saman á vöruskiptaafganginn. Eins og greiningardeild benti á í nýjustu hagspá sinni byggist geta landsins til að greiða af erlendum lánum sínum á viðskiptaafgangnum,“ segir meðal annars í greiningunni en þar kemur einnig fram að nýjustu tölur fyrir árið í ár virðast a.m.k. ekki benda til þess að draga muni úr innflutningi og neyslu Íslendinga á næstunni.