*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 20. apríl 2019 16:02

Veikleiki í fyrirtækjastjórnun

Fyrirkomulag ráðninga er veikleiki í fyrirtækjastjórnun hér á landi, að mati lektors við Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar.

Ritstjórn
Eyþór Ívar Jónsson er lektor við Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar og fyrrum framkvæmdastjóri Klaks Innovit

„Það er í sjálfu sér mjög áhugavert að þetta sé að gerast núna,“ segir Eyþór Ívar Jónsson, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, en undanfarna mánuði hafa óvenjumörg félög í Kauphöllinni skipt um forstjóra og hefur jafnmikil endurnýjun í brúnni ekki átt sér stað frá Hruni. 

„Stundum er sagt að mikilvægasta verkefni hverrar stjórna sé að ráða og reka forstjóra félaganna. Þetta er helsta og stærsta verkefni sem stjórnarmönnum er falið að inna af hendi. Einn af veikleikum í fyrirtækjastjórnun hér á landi er hvað ráðningum, aðferðafræði og ráðningaferlum hefur verið lítið sinnt af stjórnum íslenskra fyrirtækja. Vestan hafs eru fyrirtæki gjarnan með markaða arftakastefnu og stjórnir félaganna hafa þá oft undirbúið væntanlega arftaka um árabil og jafnvel ýtt undir samkeppni meðal starfsfólks sem sækist eftir leiðtogastöðum. 

Það er áhugavert að þessi hugsun hefur ekki átt upp á ballborðið hér. Það þykir jafnvel óviðeigandi og ókurteisi að tala um mögulega arftaka þegar sitjandi forstjóri er enn við völd. Það þýðir að spurningin um mögulega arftaka er ekki borin upp fyrr en forstjórinn er farinn og þá er bæði tímaramminn stuttur og akkúrat þá stundina er mögulega takmarkað framboð á góðum eftirmönnum í stöðuna,” segir Eyþór, en bætir við að ýmis merki séu um að viðhorf stjórnarmanna til ráðninga sé að breytast. 

Síðastliðið ár hafa 15 af 19 félögum á Aðallista Kauphallarinnar sett á fót eða eru í ferli að setja á fót svokallaðar tilnefningarnefndir sem fyrst og fremst er ætlað að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu. Sum fyrirtæki hafa víkkað starfsvið nefndanna þannig að þær taka einnig virkan þátt í vali í framkvæmdastjórn. Ef menn eru sammála um að slíkar nefndir bæti val á stjórnarmönnum vekur það upp spurningu um hvort hið sama eigi ekki við um val á forstjórum. 

Mjög oft úthýsa stjórnir fyrirtækja mati á umsækjendum til ráðningarskrifstofa. Það er hins vegar gild og áhugaverð spurning hvort stjórnir eigi ekki að taka virkari þátt í ákvörðuninni. Umræða og skoðanaskipti milli stjórnarinnar og tilnefningarnefndar gæti verið góð leið til að virkja og auka aðkomu stjórnarinnar að ferlinu og þannig stuðla að ábyrgari og upplýstari ráðningum,“ segir Eyþór Ívar Jónsson.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.