Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að veikt gengi krónunnar endurspegli veika stöðu efnahagslífsins.

Hann segir að með því að lækka stýrivexti megi blása lífi í fyrirtækin í landinu og þar með stuðla að auknum krafti efnahagslífsins. „Þannig getum við styrkt okkar grunn og um leið íslensku krónuna því við verðum að byggja á henni enn um sinn. Háir vextir halda aftur af allri uppbyggingu."

Hann kveðst því ósammála því mati Seðlabanka Íslands að lækka ekki stýrivexti.

Bjarni Már segir enn fremur, þegar hann er spurður út í þá ákvörðun Seðlabankans að lækka ekki stýrivexti, að hér séu annars  vegar gjaldeyrishöft, sem eigi að koma í veg fyrir að gengi krónunnar veikist og hins vegar háir vextir sem eigi að halda uppi genginu. „Við erum að reyna að halda uppi genginu með belti og axlaböndum. Maður skyldi ætla að annað dygði," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við erum með fyrirtæki og heimili sem eru að berjast fyrir því að halda velli, og það er mikil efnahagsleg þörf á því að lækka vexti," segir hann jafnframt og bætir því við að bankarnir virðist hafa töluverða getu til að lána út. Innlán hafi aukist mjög mikið og innlánsvextir séu mjög lágir.  Útlánsvextirnir taki hins vegar meira mið af stýrivöxtunum enda sé vaxtamunur bankanna orðinn afar mikill.

Hann bendir einnig á stöðugleikasáttmálann sem undirritaður hafi verið af hálfu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þar sé kveðið á um vaxtalækkanir til að skapa skilyrði fyrir því að stöðugleiki náist.