*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 31. júlí 2021 08:56

Veiran gæti verið útbreiddari

Til skoðunar er að ráðast í skimun með slembiúrtaki til að kanna hvort útbreiðsla Covid-19 sé meiri en smittölur gefa til kynna.

Jóhann Óli Eiðsson
Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að ráðast í veiruskimun með slembiúrtaki til að kanna hvort útbreiðsla Covid-19 farsóttarinnar sé meiri en smittölur gefa til kynna. Næstu vikur verða nýttar til að skoða áhrif veirunnar á smitaða, hvort tilefni sé til að viðhalda aðgerðum eður ei og þá í hvaða mynd.

Framgang faraldursins þarf ekki að rekja í löngu máli, en á vormánuðum var búið að bólusetja þorra þjóðarinnar. Bóluefnin reyndust ekki verja öll fyrir smiti en vísbendingar hafa verið uppi um að þau verji einstaklinga gegn því að taka sótt, í það minnsta að einkenni verði minni en ella. Þegar þetta er ritað eru 852 í einangrun vegna smits, átta hafa þurft á innlögn að halda og einn liggur á gjörgæslu. Ekki þarf langskólagenginn stærðfræðing til að sjá að staðan er talsvert betri en í fyrri bylgjum pestarinnar.

„Það mikilvægasta er að leggja mat á hve algeng alvarleg veikindi eru sem hlutfall af þeim sem sýkjast. Af þeim sökum var gripið til þeirrar varúðarráðstöfunar að herða aðgerðir tímabundið og nýta tímann til að afla gagna,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hraðpróf í skoðun

Ýmislegt bendir til þess að þeir einstaklingar sem fengu bóluefni Janssen greinist frekar en aðrir. Vert er að muna að yngri einstaklingar, sem eru eðli málsins samkvæmt meira á ferðinni, fengu það efni í meiri mæli en þau sem eldri eru. Sem stendur er í undirbúningi að gefa þeim annan skammt af efninu sem og að bjóða fólki í áhættuhópum upp á þriðja skammtinn.

Sú hugmynd hefur verið viðruð að bólusetningarnar séu í raun að veita meiri vörn en smittölur segja til um. Skimun fyrir veirunni hefur ýmist verið á grunni einkenna eða nándar við sýktan einstakling en mögulegt er að töluvert fjölmennur hópur, sem sýni engin einkenni, sé á sveimi í samfélaginu. Sé það raunin má leiða að því líkur að hlutfall smitaðra sem veikist alvarlega sé lægra en núverandi tölur gefa til kynna.

„Þetta er sannarlega rétt ábending og eitt af því sem hefur verið rætt. Það kann að vera ákveðinn akkur í því að kanna stöðuna almennt og handahófskennt, líkt og áður hefur verið gert með aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar, og er slíkt í skoðun,“ segir Svandís. Þá er einnig til skoðunar að taka hraðpróf í notkun í auknum mæli, en slíkt gætu fyrirtæki og stofnanir til að mynda gert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Covid-19