Kínverskir vísindamenn efast um að hægt verði a uppræta kórónuveiruna sem farið hefur eins og eldur um sinu yfir heiminn frá því að hún uppgötvaðist í Wuhan borg þar í landi fyrir áramót. Styrkja niðurstöður þeirra stoðum undir það viðhorf sem er að festa rætur víða um heim að veiran muni líklega koma aftur og aftur upp ekki ósvipað og flensan.

Ástæðan fyrir því að ekki virðist mögulegt að uppræta veiruna algerlega líkt og tókst með hina náskildu SARS veiru fyrir 17 árum er sú að hún getur smitað fólk án þess að það verði fyrir augljósum áhrifum eins og hita.

Þeir sem þannig beri sjúkdómin án einkenna geri erfitt um vik að halda smitinu algerlega í skefjum, að því er hópur kínverskra smitsjúkdómalækna og vísindamanna vitnuðu um í Beijing að því er Bloomberg greinir frá.

Þeir sem fengu SARS veiruna urðu hins vegar mjög veikir, en um leið og þeir voru settir í sóttkví var hægt að stöðva útbreiðslu veirunnar, en í Kína er enn að finnast tugir smitaðra án einkenna á hverjum degi.

„Þetta er líklega farsótt sem getur þrífst meðal manna í langan tíma, orðið árstíðarbundin og viðhaldist innan líkama manna,“ segir Jin Qi, sem stýrir rannsóknarstofnun um smitsjúkdóma í heilbrigðisvísindastofnun Kína.

Eru vísindamenn og stjórnmálamenn víða um heim sagðir vera að komast að þeirri niðurstöðu að erfitt verði að útrýma veirunni, þrátt fyrir kostnaðarsöm samkomubönn og fjarlæðgðartakmarkanir, og vísað á Svíþjóð sem dæmi um land sem ákveðið hefur að ganga skemur í aðgerðum gegn útbreiðslu veirunnar.

Hafa jafnvel sumir sérfræðingar haldið því fram að leyfa ætti sjúkdómnum að dreifa sér á stýrðan hátt meðal yngri þjóða eins og Indland, en Viðskiptablaðið fjallaði á dögunum um erfiða stöðu íbúa þar í landi til að berjast gegn útbreiðslu faraldursins.