Stærsta matvöruverslanakeðja Bretlands, Tesco, reiknar með að kórónuveiran muni kosta fyrirtækið 925 milljónir punda og veiran geri það ógerlegt fyrir félagið að birta afkomuspá fyrir fjárhagsárið sem nú er í gengi. Reuters greinir frá þessu.

Matvöruverslunarkeðjan gaf þó jafnframt út að ef heimsóknir í búðirnar næðu fyrri horfi í ágúst, gæti félagið að miklu leyti náð að jafna út tapið vegna veirunnar, vegna meiri sölu og lækkunar skatta á fyrirtæki. Umrædd skattalækkun er ein af aðgerðum ríkisstjórnar Bretlands til að aðstoða fyrirtækin í landinu að takast á við rekstrarerfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.