Breska flugfélagið Flybe er farið í gjaldþrot eftir hrun í eftirspurn eftir flugferðum í kjölfar útbreiðslu kóronaveirunnar Covid-19 sem lengi var kennd við upprunaborgina Wuhan í Kína. Tilkynnt var um það í morgun að félagið hefði stöðvað allt flug, og bað það fólk um að fara ekki á flugvöllinn nema það hafi þegar tryggt sér annað flug með öðru flugfélagi.

Félagið Flybe var stofnað árið 1979 og var um tíma stærsta sjálfstæða staðbundna félagið í Evrópu, og flutti um tíma um 8 milljónir farþega á ári, þegar það starfrækti um 200 flugleiðir. Rekstur félagsins hefur verið erfiður undanfarið, og tilkynntu stjórnvöld í Bretlandi í janúar að það væri í viðræðum við félagið um fjármál þess og skoða möguleika á því að bjarga félaginu.

Erfiðleikar félagsins mögnuðust þó svo um munaði vegna útbreiðslu kóronaveirunnar sem hafði mikil áhrif á eftirspurn eftir flugferðum, og virðist það hafa ýtt félaginu fram af brúninni.

Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, sagði líklegt að útbreiðsla veirunnar geti kostað flugfélög tugi milljarða Bandaríkjadala og dregið úr alþjóðlegum flugferðum um 4,7%, sem er fyrsti samdrátturinn síðan alþjóðlega fjármálakreppan stóð sem hæst.