„Nú erum við í storminum. Hann er skollinn á og þá er það bara að takast á við hann,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hún tekur á móti blaðamanni, á skrifstofu sinni í menntamálaráðuneytinu, sama dag og ferðabann tveggja af helstu bandalagsríkjum Íslendinga, Dana og Bandaríkjamanna, tók gildi til að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í löndunum.

Lilja segir stöðuna um margt minna á fjármálahrunið árið 2008. Þá var Lilja einnig í miðri hringiðunni þar sem hún starfaði í Seðlabankanum, hinum megin við götuna við menntamálaráðuneytið. Markmiðið sé skýrt, að heilbrigði íbúanna sé tryggt og að það takist að halda samfélaginu gangandi gegnum storminn.

„Uppruninn er auðvitað annar en árið 2008. Þetta er heilbrigðisvá, svo við þurfum að geta treyst á að við séum með öflugt heilbrigðiskerfi og öflugar sóttvarnir og sóttvarnalög. Ég bjóst ekki við því að ég kynni 12. og 13. grein sóttvarnalaga fyrir átta vikum,“ segir Lilja.

Tekur stöðuna nú meira inn á sig

„Síðast var það gríðarlegt áfall að heilt bankakerfi skyldi hrynja. Núna reynir á með öðrum hætti. Maður tekur málin meira inn á sig því nú erum við að takast á við heilsu og líf fólks. Það reynir á hvernig samfélag við erum. Erum við sterkt samfélag sem getur staðið þessar áskoranir af sér? Við í ríkisstjórninni viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að huga að heilbrigði þjóðarinnar. Við höfum verið að fjárfesta í og byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi.“ Öll samfélög undirgangist sama prófið en þurfi að takast á við aðstæður með ólíkum hætti.

„Viðbrögðin í Bandaríkjunum hafa til dæmis litast af því að þar er ekki öllum almenningi séð fyrir almennri heilbrigðisþjónustu.“ Lilja segir útbreiðslu veirunnar sem og efnahagslegu afleiðingarnar vera skýrt merki um hve alþjóðavæðingin hafi gert lönd heimsins nátengd hvert öðru. Um leið reyni á samtakamátt ríkja.

„Í svona áfalli skiptir mestu máli að þjóðir heimsins vinni saman. Árið 2008 fóru samskipti ríkja í tímabundið uppnám og það hefur gerst í nokkrum tilvikum nú, m.a. með lokun landamæra. Það er óheppilegt og þegar virðiskeðjan rofnar er mjög mismunandi hvernig þjóðir heimsins koma út úr því. Við svona aðstæður sjáum við hversu háð við erum alþjóðaviðskiptum, sem eru jákvæð fyrir alþjóðahagkerfið og okkur, sem búum í litlu opnu hagkerfi. Við reiðum okkur á að geta selt okkar vörur úr landi og flutt inn, en á sama tíma þurfum við að vera sjálfum okkur nóg um nauðsynjar. Það er t.d. mikilvægt að við getum framleitt mat í landinu og að hér sé rekin skynsamleg matvælastefna,“ segir Lilja.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .