Netverslunin Asos, sem selur m.a. föt og fylgihluti, hefur bætt um þremur milljónum viðskiptavinum við sig á þessu ári og eru þeir nú orðnir 23,4 milljónir í heildina. Þar af eru 7 milljónir í heimalandinu Bretlandi. Fyrir vikið hefur hagnaður netverslunarinnar fyrir skatta aukist um 329%, í 142 milljónir punda. BBC greinir frá.

Líkt og þekkt er orðið hefur kórónuveirufaraldurinn orðið til þess að mikil sprenging hefur átt sér stað í netverslun. Asos hefur þó áhyggjur af því að atvinnuleysið sem faraldurinn hefur í för með sér muni bitna á ungum viðskiptavinum, en unga fólkið hefur í gegnum tíðina verið duglegra að versla í gegnum netið en eldri kynslóðir.

Forstjóri Asos, Nick Beighton, varar einnig við því að Brexit geti haft slæm áhrif á fyrirtækið, enda gætu tollar sem mögulega verður komið haft slæm áhrif á kostnaðarhlið fyrirtækisins.