Heildarfjöldi staðfestra smita af kórónuveirunni sem veldur Covid 19 sjúkdómnum í heiminum er nú kominn yfir 2 milljóna markið samkvæmt upplýsingasíðu Johns Hopkins háskólasjúkrahússins í Bandaríkjunum. Veiran sem fyrst varð vart seint á síðasta ári í Wuhan borg í Kína hefur dreifst hratt út um heiminn síðan þá og tók það hann um fjóra mánuði að ná milljón sýktum einstaklingum.

Síðan sá áfangi nást hefur það einungis tekið veiruna 12 daga að tvöfalda sig, en þó telur Bloomberg fréttasíðan að það sé vanáætlun enda geti fjöldi landa, þar á meðal Bandaríkin, ekki mælt nema lítinn hluta af íbúum sínum.

Á upplýsingafundi Almannavarna Íslands fyrr í dag kom fram að sjö hafi greinst með veiruna hér á landi í gær, þar af greindi veirufræðideild Landspítalans þrjú smit, en Íslensk erfðagreinin fjögur. Einungis þrír þessara einstaklinga voru þegar í sóttkví þegar mæling var gerð en Íslensk erfðagreining hefur verið með slembiúrtaksmælingar í gangi.

Alls voru tekin 1.047 sýni sem er mun meira en síðustu fjóra daga þar á undan, en þrátt fyrir það hafa ekki fleiri ný smit mælst hér á landi síðan 8. mars, þegar fimm greindust með sýkinguna að því er RÚV greinir frá.

Hefur fjöldi nýsýktra nú fækkað níu daga í röð, það er þeir sem hafa greinst en ekki náð sér, og eru nú 642 veikir hér á landi en 1.077 hafa náð sér, og hafa ekki verið færri veikir síðan 23. mars.

Nærri 130 þúsund þegar látið lífið

Samkvæmt Johns Hopkins upplýsingasíðunni er fjöldi staðfestra smita í heiminum þegar þetta er skrifað 2.000.984, en dauðsföllin 128.071. Viðskiptablaðið sagði frá því 18. mars síðastliðinn að staðfest smit væru þá 200 þúsund, en þegar fyrst var sagt frá upplýsingasíðu háskólasjúkrahússins höfðu staðfest smit ekki náð 100 þúsund . Þegar sagt var frá samsvarandi íslenskri upplýsingasíðu var fjöldi staðfestra smita rétt tæplega 120 þúsund .

Stærstur fjöldi staðfestra smita í dag er í Bandaríkjunum, eða rétt tæplega 610 þúsund manns, en heildarfjöldi mælinga sem gerðar hafa verið í landinu eru 3.120.381, þar af langflest eða 499.143 í New York ríki sem farið hefur einna verst út úr faraldrinum.

Næst á eftir Bandaríkjunum koma svo Spánn með 177.633 staðfest smit, síðan Ítalía með 162.488 smit, Þýskaland með 132.321 smit, Frakkland 131.362 smit, Bretland með 94.852 smit og loks Kína með 83.355 smit samkvæmt opinberum tölum.