*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 4. júlí 2018 14:11

Veislan 20% ódýrari en á HM 1998

Að halda grillveislu að tilefni úrslitaleiksins í Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu nú er fimmtungi ódýrara en fyrir 20 árum.

Ritstjórn
Samanburð greiningardeildarinnar nær að vísu ekki til hamborgara eins og hér eru grillaðir heldur lambalærisneiða, svínakótiletta, frosins kjúklings, pylsna, Egils Gulls og tveggja lítra kóks.

Bergþóra Baldursdóttir sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka ritaði skemmtilega grein á vef bankans þar sem hún bar saman kostnað við að halda grillveislu með öllu tilheyrandi að tilefni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Rússlandi eða fyrir tuttugu árum síðan.

Á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Frakklandi árið 1998 unnu heimamenn þriggja marka sigur gegn engu marki Brasilíu í úrslitaleiknum en þessi lið gætu mæst nú í undanúrslitaleik 10. júlí næstkomandi. „En hvað sem gerist verður leikið til úrslita þann 15. júlí og þá verður grillað enda komin sól,“ lofar Bergþóra þrátt fyrir hrakspár veðurfræðinga þjóðinni til ama síðustu mánuði og misseri.

„Ef halda á grillveislu með úrval af kjöti, pylsum fyrir börnin ásamt gosi og bjór kemur í ljós að það var rúmlega 20% dýrara að halda grillveislu árið 1998 en nú tveimur áratugum síðar. Að halda slíka grillveislu árið 1998 kostaði 11.985 kr. á verðlagi ársins 2018. Sams konar veisla kostar hins vegar tæpar 9.500 kr. í dag.“

Kók og kótilettur lækkað mest

Bergþóra tekur tillit til verðbólgunnar á þessum tveimur áratugum en hún tekur jafnframt fram að samanburðartölurnar frá því fyrir tuttugu árum miða við einungis eina verslun og vörurnar ekki í öllum tilvikum þær sömu þó séu sambærilegar.

„Mesti munurinn var á svínakótelettum og 2 lítra flösku af Coca-Cola. En árið 1998 kostaði kíló af svínakótelettum helmingi meira en í dag og 2 lítra Coke sömuleiðis,“ segir Bergþóra sem segir að allar vörurnar séu ódýrari í dag en þá. „Minni munur er á öðrum vörum sem við bárum saman, sem dæmi má nefna að stór dós af Egils Gulli og hálft kíló af pylsum eru um fjórðungi ódýrari í dag.“