Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist óviss um hvort að náist að klára viðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir helgi. Þó segir hann að stjórnarmyndunarviðræðurnar gangi ágætlega, þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum.

„Þetta gengur ágætlega, en þetta er ekki búið. Við erum að ræða málefnin núna. Þetta eru allt saman stórmál. Það er ekki þannig að það sé einhvers konar vandamál. Við erum bara að fara yfir textana,“ segir Benedikt.

Aðspurður að því hvort að stefnt væri að því að skrifa stjórnarsáttmála á næstunni svarar Benedikt að það  mætti segja að þetta séu drögin að því, sem unnin eru í viðræðunum núna.

„Hvað sagði ég?“

Benedikt tekur einnig fram að stefnt sé að því að skoða ráðherraskipan á næstunni. Aðspurður um fréttaflutning um skiptingu ráðuneyta segir hann að menn eigi það til að reyna að rýna í hvað þeim finnst líklegt. „Svo verður það þannig að eitthvað af því. Þá segja menn: Hvað sagði ég. Svo gleyma menn öllu sem var rangt ,“ bætir hann við.

Benedikt segir að sátt ríki innan flokksins með viðræðurnar. „Bæði þingflokkur og stjórnin er búin að fara í gegnum það. „Þetta mjakast allt áfram og fer í rétta átt.“