Framtíðin er sérhæfður lánasjóður sem býður meðal annars upp á húsnæðislán. Nýjar reglur FME kveða á um að hámark veðsetningahlutfalls af markaðsverði fasteignar megi einungis vera 85 prósent eða 90 prósent fyrir fyrstu kaupendur. Áður veitti lánasjóðurinn til að mynda 90 prósenta lán fyrir alla. Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíð­arinnar segir:

„Í sumar vorum við að bjóða þetta fyrir alla, en nú getum við einungis farið upp í 85%, fyrir þá sem eru ekki fyrstu kaupendur. Við höfum þó aðallega verið að horfa til þeirra sem eru að kaupa fasteign í fyrsta skipti. Það eru til dæmis margir ungir einstaklingar sem eru nýkomnir úr skóla og eru með góðar tekjur í góðum störfum, en eru ekki með margar milljónir inni á banka. Þetta auðveldar þeim að koma inn á markaðinn sem vantar eigið fé,“ segir hann.

„Yfirvöld eru annars vegar að passa upp á áhættu í bankakerfinu og hins vegar að passa upp á neytendurna sem taka lánin. En þessi hluti sem varðar áhættu í bankakerfinu á síður við um okkur þar sem við erum lítill aðili og erum ekki banki,“ bætir hann við að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .