Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau myndu veita Ísrael, Egyptalandi, Sádi-Arabíu og öðrum Persaflóaríkjum hernaðaraðstoð upp á að minnsta kosti 43 milljarða Bandaríkjadala til næstu tíu ára. Ávörðunin er liður í stefnu Bandaríkjanna að styrkja bandamenn sína í Miðausturlöndum til að draga úr áhrifum Írana á svæðinu, en þau hafa aukist verulega undanfarin misseri.

Áform Bandaríkjanna gera ráð fyrir því að á næstu tíu árum muni Egyptar fá 13 milljarða dala aðstoð og Ísraelar samtals hljóta 30 milljarða dala, sem er 25% aukning frá því sem áður var. Að auki verður ótilgreindri upphæð varið til kaupa á hátæknivopnabúnaði til að styrkja varnir Sádi-Arabíu og fimm smærri nágrannaríki konungdæmisins við Persaflóa, en í frétt New York Times kemur fram að sú upphæð gæti að lokum numið í kringum 20 milljörðum dala.

Hin fyrirhugaða hernaðaraðstoð mun þurfa að hljóta samþykki Bandaríkjaþings. Stjórnmálaskýrendur búast við andstöðu frá einhverjum þingmönnum, einkum varðandi aðstoðina til Sádi-Arabíu, en þarlend stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að veita Bandaríkjamönnum ekki nægjanlega aðstoð í Írak. Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, lýsti hins vegar yfir stuðningi við áform Bandaríkjanna um að styrkja "hófsamari" ríki Miðausturlanda.