Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð standa að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála og verða þau afhent í fyrsta sinn þann 27. maí næstkomandi á ráðstefnunni „Aukið jafnrétti - Aukin hagsæld". Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun afhenda verðlaunin.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama samkvæmt tilkynningu um verðlaunin.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa stuðlað að:

  • Auknum möguleikum beggja kynja til  starfsframa
  • Jöfnum launum kynjanna
  • Jöfnum hlutföllum kynjanna í stjórnendastöðum
  • Aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið

Umsóknarfrestur er til 21. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu UN Women á Íslandi www.unwomen.is .