*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 11. júlí 2020 19:01

Veitingageirinn að taka aftur við sér

Hrefna Rósa Sætran segist hafa innleitt alls kyns nýjungar á stöðunum sínum vegna faraldursins.

Magdalena A. Torfadóttir
Hrefna Rósa Sætran, stofnandi og eigandi veitingastaðanna Grillmarkaðarins, Fiskmarkaðarins og Skúla Craftbar.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hrefna Rósa Sætran, stofnandi og eigandi veitingastaðanna Grillmarkaðarins, Fiskmarkaðarins og Skúla Craftbar, segir að undanfarnir mánuðir hafi tvímælalaust verið þeir erfiðustu sem staðirnir hennar hafi gengið í gegnum. „Þessir tímar hafa verið einna erfiðastir fyrir veitingageirann myndi ég halda,“ segir Hrefna og bætir við að síðustu mánuðir hafi verið mjög skrýtnir.°

„Við náttúrulega höfum gengið í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina. Við höfum upplifað efnahagshrunið 2008 og eldgos en samdrátturinn sem var þá var ekkert í líkingu við það sem við sjáum núna.“ Hún bendir jafnframt á að óvissan hafi verið mikil. „Þegar veiran spratt fyrst upp hér á landi þá huguðum við vel að smitvörnum og báðum okkar viðskiptavini að virða tveggja metra regluna. Þannig að það var frekar skrítin stemning. Það var eins og fólk væri hrætt þegar það væri úti að borða. Síðan ákváðum við í kjölfarið að það væri best að loka stöðunum tímabundið svo við lokuðum til 20. apríl.“

Hún bætir við að þegar þau ákváðu að opna á ný hafi þau tekið þá ákvörðun að opna Grillmarkaðinn og Fiskmarkaðinn undir sama þaki. „Við ákáðum að sameina staðina tímabundið því það hefði verið svo dýrt að halda báðum stöðunum opnum. Það þarf að borga hita og rafmagn og svo framvegis svo þetta var ágætis hagræðingaaðgerð. En við stefnum á að opna Fiskmarkaðinn aftur á sínum stað 23. júlí.“

Alls kyns nýjungar í bígerð

Hrefna kveðst vera bjartsýn á sumarið og segir að það verði sífellt meiri aðsókn með hverjum deginum sem líður. „Maður heyrir það líka frá mörgum í veitingageiranum að aðsóknin er að verða sífellt meiri og síðan eru túristarnir líka farnir að láta sjá sig og Íslendingar farnir að fara út í meiri mæli. Þó er staðan eins og hún er núna ekki sambærileg því sem er í venjulegu árferði. En ég er mjög bjartsýn og við ætlum að innleiða alls kyns spennandi nýjungar,“ segir Hrefna og bætir við að þau hafi þegar innleitt spennandi nýjung á Skúla Craftbar.

„Á Skúla Craftbar höfum við verið að bjóða upp á nokkrar tegundir af taco meðal annars rækju-taco og við stefnum að því að bjóða upp á það líka á Fiskmarkaðnum þegar hann verður formlega opnaður. Við munum sem sagt bjóða upp á rækju-tacoið og líka alls kyns nýjungar í sushi."

Frekar bjartsýn á haustið

Hrefna segist aðspurð hvort veitingastaðirnir séu í stakk búnir til að takast á við þá erfiðleika sem kunna að koma upp ef önnur byglja af COVID-19 muni ríða yfir að þau séu að búa sig undir að svo fari. „Þegar fyrsta bygljan reið yfir þá vorum við ekki undirbúin. En ef ske kynni að önnur bylgja komi þá erum við í stakk búin til að bregðast við.“ Hún bætir við að hún sé þó fremur bjartsýn á komandi sumar og haust.

„Maður heyrir það bara þegar maður hittir fólk í þessum bransa að fólk virðist verða bjartsýnna og bjartsýnna með hverri vikunni sem líður. Við finnum öll að erlendir ferðamenn eru farnir að koma til okkar í meiri mæli og líka Íslendingar.“ 

Hún bætir þó við að salan sé þó ekki nærri því jafnmikil og hún er í venjulegu árferði. „Staðan var náttúrulega þannig meðan COVID-19 heimsfaraldurinn stóð yfir þá var einfaldlega enginn að koma en nú hefur það breyst. Auðvitað er salan ekki jafnmikil og hún hefur verið undir eðlilegum kringumstæðum. En við erum samt að sjá aukningu núna úr engum yfir í einhverja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér