Veitingahúsið Galileó var nýlega selt S.Þ. Veitingum en það á fyrir Hlöllabáta og Red Chili og var stofnað árið 2004. Að fyrirtækinu standa Helgi Guðmundsson, Þröstur Magnússon og Sigurður Garðarsson.

"Eigandinn hafði hug á að selja staðinn og setti sig í samband við okkur og við keyptum," segir Helgi um tildrög kaupanna og er að sögn bjartsýnn um framtíðina. Um frekari uppkaup á veitingastöðum segir Helgi: "Ekki í bili, en það er allt opið."

Helgi segir að þeir muni leggja sig fram við að búa til "besta ítalska veitingastaðinn á landinu" en það verði þó ekki breyttar áherslur á rekstrinum, frekar hefðbundin tiltekt sem óhjákvæmilega fylgir nýju eignarhaldi. Í því samhengi nefnir hann breytingar á matseðli og aukna áherslu á þjónustu og fagmennsku.

Helga þykir veitingageirann verða sífellt meira spennandi og liggur ástæðan meðal annars í vandaðri rekstaraðilum sem reki fyrirtækin af meiri fagmennsku og nefnir í því samhengi að mikil samþjöppun ríki á markaðinum, til dæmis á 101 Heild sjö veitingastaði.

Staðirnir sem S.Þ. Veitingar eiga og reka eru allir með mismunandi áherslum, að sögn Helga og segir hann að hver og einn af eigendunum beri ábyrgð á hverjum stað fyrir sig.