Veitingahúsið Perlan hagnaðist um 11 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári. Afkoma veitingahússins fyrir fjármagnsliði var um 10,9 milljónir, en fjármagnstekjur vori um tveimur og hálfri milljón meiri en fjármagnsgjöld. Hagnaður veitingahússins nam 32 milljónum eftir skatta árið 2013 og varð því talsverður samdráttur í hagnaði milli ára.

Handbært fé frá rekstri Veitingahússins Perlunnar nam 20,4 milljónum króna í fyrra, en 47,8 milljónum árið 2013. Þrátt fyrir þennan samdrátt jukust arðgreiðslur félagsins milli ára. Arðgreiðslurnar námu 14,4 milljónum árið 2013, en 17,8 milljónum í fyrra.

Eignir Veitingahússins Perlunnar námu 163 milljónum við síðustu áramót. Þar af var handbært fé 59 milljónir. Eigið fé veitingahússins Perlunnar var 82 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið því um 50 prósent.

45 ársverk eru hjá Veitingahúsinu Perlunni. Sigrún J Oddsdóttir á 42,5% hlutafjár í félaginu, en Stefán Sigurðsson, Gísli Thoroddsen og Stefán Elí Stefánsson eiga hvor um sig minni hlut.