Rekstraraðilar veitingastaða í miðborginni eru margir hverjir ósáttir við framferði lögreglu í kringum lokunartíma staðanna. Þeir leggja ekki sömu túlkun og lögregla í hvenær veitingastöðum skuli lokað, að því er Morgunblaðið greinir frá í dag.

Erlendur Þór Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður sem starfar fyrir veitingamenn, segir lögreglu beita óbeinum hótunum í samskiptum við rekstraraðilana þegar líða tekur að lokun. Veitingastaðir megi ekki taka við nýjum gestum eftir lokun en er heimilt að hafa opið til 22. Hins vegar er deilt um hvort gestir megi sitja á stöðunum í klukkustund eftir lokun hans, en samkvæmt reglugerð skulu „allir gestir skulu hafa yfirgefið veitingastað eigi síðar en einni klukkustund eftir lokun hans“. Samkvæmt því megi gestir sitja á stöðum til klukkan 23.

„Þessi hegðun minnir á ófagra stemningu í A-Evrópu á sínum tíma og er eftirlitsaðilum ekki til framdráttar enda rekstraraðilar að leggja sig alla fram um að virða þær reglur sem eru til staðar á hverjum tíma,“ segir Erlendur við Morgunblaðið.

„Það er einfaldlega mjög óþægilegt fyrir veitingastaði, sem á að vera afslappandi upplifun að sækja, að hafa lögreglumenn ítrekað inni á gólfi hjá sér. Aðallega er þó óheppilegt þegar lögregla eða aðrir eftirlitsaðilar fara ekki eftir þeim skýru reglum sem settar eru. Rekstraraðilarnir skilja reglurnar alveg en lögreglan virðist því miður vera með annan skilning,“ bætir hann við.