Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) áttu nýlega fund með viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, til þess að ræða um reglur um vínmál. Veitingamenn hafa óskað eftir því að áfengisskammtar eða "sjússastærðir" verði hinar sömu og í nágrannalöndum.

Á Íslandi er einfaldur 3 cl. en á hinum Norðurlöndunum er t.d. mælt í 2, 4 og 6 cl. Það er mat fulltrúa SAF að Íslendingar standi alveg nógu illa að vígi hvað varðar áfengisverð þótt við séum ekki með stærri skammta í þeim samanburði. Það verður því óskað eftir því að þessum skömmtum verði breytt til samræmis við nágrannalöndin. Ennfremur var rætt við ráðherra um löggildingarmál og þann kostnað sem veitingamenn bera vegna þeirra. "Það er með ólíkindum að greiða þurfi nálægt þrjú þúsund krónum fyrir löggildingu fyrir hvert einasta vínmál sem notað er þrátt fyrir að varan komi frá viðurkenndum framleiðanda en veitingastaðirnir nota almennt sömu tegund vínmála," segir í fréttabréfi SAF.