Kortavelta í veitingageiranum hérlendis dróst saman um 22 milljarða að raunvirði frá mars til október á milli ára, þar af var 19 milljarða samdráttur vegna erlendra ferðamanna. Kortavelta ferðamanna í veitingageiranum dróst saman um 82% á téðu tímabili en innlend kortavelta dróst saman um 9%. Frá þessu greinir Fréttablaðið og vitnar í skýrslu Samtaka atvinnulífsins.

Störfum í veitingageiranum hefur fækkað um fjórðung á milli ára en í september fengu um 2.700 færri einstaklingar greidd laun í stéttinni, samanborið við sama tímabili fyrra árs. Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á að veitingamenn hafi í ofanálag þurft að glíma við mikinn ófyrirsjáanleika í rekstrinum, til að mynda vegna breytinga á fyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða.

Veitingastaðir hafi staðið höllum fæti 2019

Anna Hrefna segir enn fremur að rekstur veitingastaða hafi verið orðinn erfiður á síðasta ári þegar ferðamönnum hafi tekið að fækka og laun haldið áfram að hækka. Segir hún að 40% veitingastaða hafi verið reknir með tapi á síðasta ári, miðað við ársreikninga 2019.

Í greiningu SA er svo sagt frá því að skuldahlutfall greinarinnar sé um 70-80% „og því ekki mikið svigrúm til aukinnar skuldsetningar í yfirstandandi kreppu“.