Í þessum mánuði munu Íslandshótel opna nýtt 130 herbergja hótel á Lækjargötu, Hótel Reykjavík Saga, og síðar á árinu munu Icelandair Hotels opna 163 herbergja hótel í Landssímahúsinu við Austurvöll sem mun heita Iceland Parliament Hotel og verður rekið með sérleyfi frá Hilton hótelkeðjunni sem kallast Curio Collection by Hilton. Samtals gera þetta 293 herbergi sem eykur fjölda hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu um 6% miðað við herbergjafjöldann í apríl. Hildur Ómarsdóttir, aðstoðarforstjóri Icelandair Hotels, segir að tafir hafi orðið á opnun hótelsins á Austurvelli en búið sé að ráða flest lykilstarfsfólk. Búast má við því að opnun hótelsins verði lyftistöng fyrir mannlífið á Austurvelli og í Fógetagarðinum, en til stendur að opna veitingastað sem snýr að Austurvelli, og bar á móts við Kirkjustræti.


Lítið um ný áform

Í fyrra samþykkti byggingarfulltrúi Reykjavíkur byggingaráform fyrir rúmlega þúsund fermetra undir hótel og veitingahús samanborið við rúmlega 17 þúsund fermetra árið 2020 og 35 þúsund árið 2018. Þó eru nokkur áform uppi um byggingu nýrra hótela sem voru flest á teikniborðinu fyrir heimsfaraldurinn.

Á horni Skúlagötu og Vitastígs er verið að reisa 17 hæða turn sem á að hýsa 203 herbergja hótel Radisson RED, en hlé hefur verið á framkvæmdum undanfarið. Fyrirhugað er að stækka Grand hótel um 150 herbergi, en sú framkvæmd hefur legið fyrir lengi og á fundi um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis fyrr á árinu fullyrti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að framkvæmdir þar myndu hefjast á þessu ári. Þá hyggst Center Hotels stækka hótelið sitt á Laugavegi og hefur fest kaup á Laugavegi 12b sem á að nýta undir stækkun hótelsins. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það verkefni sé í bið enn sem komið er. Í fyrra gerðu Hyatt og Reitir samkomulag um opnun 169 herbergja Hyatt hótels sem verður í gamla sjónvarpshúsinu á Laugavegi 176 en framkvæmdir eru ekki hafnar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.