Veitingahúsið Við Fjöruborðið á Stokkseyri hefur notið mikilla vinsælda og nú er unnið að stækkun þess. Á fréttavefnum sudurland.is er greint frá því unnið sé að verulegri stækkun á veitingastaðnum og hefur verið byggð ný álma þannig að veitingastaðurinn taki 230 gesti.

Í fréttinni kemur fram að rúmlega 35.000 matargestir hafi komið á staðinn á árinu 2006 og pantanir nú fyrstu mánuði ársins 2007 eru 15 - 20% fleiri en á síðasta ári.

Í fréttinni kemur einnig fram að staðurinn nýtur gríðarlegra vinsælda og hróður þess fer víða um lönd og strönd bæði hér á landi og erlendis. "Flestir erlendir popptónlistarmenn sem koma til landsins leggja leið sína til Stokkseyrar og borða humar á veitingahúsinu Við Fjöruborðið og frægar eru í poppheiminum heimsóknir Dave Grohl og hljómsveitarinnar Foo Fighters á staðinn og vinátta þeirra við drengina frá Stokkseyri og Eyrarbakka í hljómsveitinni NilFisk," segir í frétt sudurland.is.