Danska lánatryggingarfyrirtækið Euler Hermes veitir þeim birgjum sem selja dönsku raftækjakeðjunni Merlin ekki lengur tryggingu fyrir að þeir fái greiðslu vegna vantrúar á fjárhagslega burði Merlin, að því er fram kemur í frétt Børsen sem fjallar um það í opnugrein hvernig lausafjárkreppan geti sett dönsk fyrirtæki í íslenskri eigu í erfiðar aðstæður.

Merlin, sem rekur einar 46 verslanir í Danmörku, er dótturfélag Árdegis, sem er í eigu Sverris Berg Steinarssonar og fjölskyldu.

Árdegi á og rekur verslanir á Íslandi undir nöfnum BT, Skífunnar, NOA NOA og NEXT. Árdegi, Milestone og Baugur Group keyptu Merlin-keðjuna af FDB haustið 2005 en Merlin hafði þá verið rekið með miklu tapi um hríð.

Milestone átti 35% hlut í Merlin og ekki hefur verið greint frá því að Milestone hafi selt þann hlut.

Sverrir Berg viðurkennir í samtali við Børsen að birgjar hafi ekki getað keypt sér tryggingar vegna Merlin en tekur fram að unnið sé í því að veita tryggingafyrirtækjunum nauðsynlegar upplýsingar um fjárhagslega stöðu Merlin og Árdegis þannig að Merlin falli burt af „svörtum listum“ tryggingafélaga.

„Eigum við í lausafjárvandræðum? Já. Er það mikið vandamál? Nei. Er það langvarandi vandamál? Nei, það er lausafjárvandræði til skamms tíma og Merlin á ekki í meiri vandræðum en markaðurinn almennt,“ segir Sverrir við Børsen og áréttar að hann hafi tekið við Merlin fyrir þremur árum þegar það hafi verið rekið með margra milljarða tapi en nú sé búið að snúa taprekstrinum við og Merlin sé nú rekið með hagnaði og ekki þá bara EBITDA-hagnaði.