Orkustofnun veitti þann 14. júlí síðastliðinn málmleitarfyrirtækinu Iceland Resources ehf. í Reykjanesbæ leyfi til fimm ára til leitar á málmum, með sérstaka áherslu á gull og kopar, á um 1013 ferkílómetra svæði í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga. Þetta kemur fram í frétt á vef Orkustofnunar .

Orkustofnun féllst að stærstum hluta á umbeðna umsókn. Heimild til kjarnaborana er þó bundin við afmörkuð svæði innan leitar- og rannsóknasvæðisins, að undangengnu frekara mati á leitar- og rannsóknaráætlun Iceland Resources ehf. fyrir þau afmörkuðu svæði sem fyrirtækið vill rannsaka nánar. Orkustofnun mun senda beiðni um frekara mat af þessu tilefni til lögboðinna umsagnaraðila og annarra aðila eftir atvikum.

Iceland Resources ehf. er að fullu í eigu JV Capital í London. Framkvæmdastjóri félagsins er Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, en hann hefur starfað sem stjórnandi við verklegar framkvæmdir við námuvinnslu í yfir tuttugu ár á Bretlandi, Íslandi og Grænlandi. Hann hefur verið framkvæmdastjóri North Atlantic Mining Associates frá árinu 2009. Hefur það fyrirtæki meðal annars leitað af gulli Þormóðsdal og á rannsóknarleyfi í Grænlandi.

Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson er stjórnarformaður félagsins, en hann hefur yfir 40 ára reynslu við verklegar framkvæmdir í námuvinnslu. JV Capital er að fullu leyti í eigu Vilhjálms Þórs og Vilhjálms Kristins og því er Iceland Resources í fullri eigu þeirra tveggja.