Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur veitt Torgi, útgefanda Fréttablaðsins, og Hringbraut undanþágu frá samkeppnislögum vegna samruna Fréttablaðsins og Hringbrautar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Sagt var frá því í miðjum mánuðinum að Helgi Magnússon hefði keypt helmingshlut í Torgi af 365 miðlum ehf. Fyrri helming hlutanna hafði hann keypt í sumar. Samtímis var tilkynnt að fyrirhugað væri að sameina Fréttablaðið og Hringbraut. Eigendur síðarnefnda fyrirtækisins myndu leggja það inn í Torg gegn því að fá hluti í því á móti.

Samkvæmt samkeppnislögum er SKE heimilt að veita undanþágu frá banni laganna við því að samruni komi til framkvæmda á meðan eftirlitið fjallar um hann. Til að slíkt sé heimilt er nauðsynlegt að sýna fram á að tafir á framkvæmd hans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þeirra og að samkeppni sé stefnt í hættu nái beiðnin ekki fram að ganga. Óheimilt er að framkvæma nokkuð þannig að ekki sé unnt að vinda ofan af samrunanum komi til þess að SKE ógildi hann.