Fjórir umsækjendur voru um hverja lóð þegar sveitarfélagið Árborg auglýsti þrjár lóðir til sölu á dögunum. Á endanum varð úr að kalla þurfti til Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann á Selfossi, til að draga úr umsóknum um lóðirnar. Lóðirnar hafa verið til búnar til byggingar síðan árið 2005.

Eyþór Arnalds, forseti bæjarstjórnar Árborgar, segir í samtali við Sunnlenska fréttablaðið, sem kom út í dag, að ekki hafi verið dregið um umsóknir við lóðaúthlutun síðan árið 2006. Hann telur áhuga á lóðunum skýrast af því að sveitarfélagið veitti 25% afslátt af gatnagerðargjöldum.

Hann segir ekkert óeðlilegt við það að veita afslátt sem þennan, enda eigi sveitarfélagið lager af lóðum og eignum.